Opinberar heimsóknir

Þú ert hér:Forsíða > Forseti Íslands > Opinberar heimsóknir
Opinberar heimsóknir 2023-07-07T13:01:12+00:00

Opinberar heimsóknir Vigdísar 

1981  Danmörk, Margrét Þórhildur drottning

1981  Noregur, Ólafur konungur, Haraldur krónprins og Sonja krónprinsessa

1981  Finnland, fyrirhuguð ferð, en hætt við vegna veikinda Kekkonens forseta Finnlands

1981  Svíþjóð, Karl Gustav konungur

1982  Bretland, Margaret Thatcher forsætisráðherra

1982  Grænland Henrik Lund, bæjarstjóri i Qaqortoq (Julianeháb), Margrét Danadrottning og Hinrik prins og fleiri

1983  Frakkland, François Mitterrand forseti

1983  Portúgal, Antónío Ramalho Eanes forseti

1984  Finnland, Mauno Koivisto forseti og frú Tellervo Koivisto

1985  Holland, Beatrix drottning

1985  Spánn, Jóhann Karl konungur.og Soffía drottning

1987  Ítalía, Francesco Cossiga, forseti Ítalíu

1987  Færeyjar, Atli T. Dam, lögmaður Færeyja

1988  Vestur-Þýskaland, Norbert Burger, borgarstjóri Kölnar

1989  Kanada, Jeanne Sauvé, landsstjóri Kanada í Ottawa

1990  Luxemborg, Stórhertogahjónin af Lúxemborg

1991  Írland, Mary Robinson forseti

1993  Noregur, Haraldur konungur

1994  Slóvakía, Michal Kovac forseti

1994  Tékkland, Vaclav Havel forseti

1995  Kína, Jiang Zemin forseti

Opinberar heimsóknir erlendra þjóðhöfðingja 

1981  Pierre Trudeau, forsætisráðherra Kanada

1982  Margrét Danadrottning og Henrik prins; Mauno Koivisto, forseti Finnlands

1983  Aristides Pereira, forseti Grænhöfðaeyja

1985  Margrét Danadrottning og Henrik prins

1986  Jean, stórhertogi af Lúxemborg og Joséphine-Charlotte af Belgíu stórhertogynja

1987  Karl Gustav Svíakonungur og Sylvia drottning

1988  Atli T. Dam, lögmaður Færeyja

1989  Juan Carlos Spánarkonunungur og Sofia drottning

1989  Pedro Verona Rodrigues Pires, forsætisráðherra Grænhöfðaeyja

1990  Elísabet II Bretadrottning; François Mitterrand Frakklandsforseti; og Vaclav Havel, forseti Tékkóslóvakíu, og Olga, eiginkona hans

1991  Mauno Koivisto, forseti Finnlands; og Francesco Cossiga, forseti Ítalíu

1992  Haraldur V. Noregskonungur og Sonja drottning; Richard von Weizsäcker, forseti Þýskalands

1993  Dr. Mário Soares, forseti Portúgal

1994  Beatrix Hollandsdrottning og Claus prins

1995  Martti Ahtisaari, forseti Finnlands, og Eeva, eiginkona hans

1996  Mary Robinson, forseti Írlands

Þá heimsótti Jóhannes Páll páfi II. Ísland árið 1989.

Vigdís fór í fyrstu opinberu heimsókn sína til Danmerkur í febrúar árið 1981. Í Kaupmannahöfn fylgdust fjölmiðlar náið með heimsókninni, ekki síst vegna þess að þar hittust tvær konur sem þjóðhöfðingjar landa sinna. Sérstaka athygli vakti að Margrét Þórhildur Danadrotting og Vigdís þáðu hádegisverðarboð danska blaðamannafélagsins en því lauk með blaðamannafundi þar sem þjóðhöfðingjarnir sátu andspænis 400 blaða- og fréttamönnum. Þetta mun hafa verið í fyrsta skipti í sögunni sem drottningin tók boði um að koma á blaðamannafund sem skipulagður var utan konungshússins.

Í fjölmiðlum var fjallað um að vel hefði farið á með þjóðhöfðingjunum og alþýðleg og hlý framkoma Vigdísar vakti athygli. Í lok fundarins voru þær Margrét drottning og frú Vigdís spurðar hvaða forsíðufrétt þær vildu sjá í blöðunum næsta dag. Vigdís svaraði að bragði: „Fullnaðarsigur vísindanna – Engin kjarnavopn.”

Í tengslum við opinbera heimsókn Vigdísar til Danmerkur, stofnaði danski athafnamaðurinn Peter Brøste til verðlauna sem nefnd voru Bjartsýnisverðlaunin (Optimistprisen) og sem veita skyldu árlega ungum íslenskum listamönnum og skyldi forseti Íslands vera verndari þeirra verðlauna. Brøste sagði: „Fyrsta opinbera heimsókn hennar var til gamla landsins, Danmerkur, þar sem hún kom fram í viðtali í danska sjónvarpinu ásamt Margréti drottningu. Ég verð að segja að ég hreifst af forseta Íslands. Hún var mjög falleg, sterk og blátt áfram og geislaði af svo mikilli bjartsýni. Hún hvatti til bjartsýni og samvinnu smáþjóða og þetta veitti mér innblástur.“ Þegar Vigdís lét af forsetaembætti, bað Brøste hana að taka sæti í dómnefnd Bjartsýnisverðlaunanna.

Mánuði eftir Danmerkurheimsóknina, sótti kanadíski landstjórinn Pierre Trudeau Vigdísi heim að Bessastöðum og um haustið heimsótti hún Noreg, Svíþjóð og Finnland. Á forsetastóli fór Vigdís í opinberar heimsóknir til margra Evrópuríkja auk Kanada og Kína.

Í nóvember 1990 var Vigdís viðstödd krýningu Akihitos Japanskeisara. Heimsókn Vigdísar til landsins varð tilefni mikillar Íslandskynningar sem íslenskir og japanskir aðilar stóðu að til að vinna að heilsteyptri ímynd Íslands í Japan. Japanir höfðu veitt leiðtogafundinum í Höfða mikla athygli og athafnamaður að nafni Sato sem átti víða golfvelli fékk þá hugmynd að reisa eftirlíkingu af Höfða á svæði sínu í Japan. Vigdís fór og vígði húsið. Við hliðina á húsinu var reist kirkja og var Höfða í Japan ætlað að vera gististaður fyrir brúðhjón. Friður átti að fylgja hjónabandinu. Á sama tíma var opnuð söluskrifstofa Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna (SH) í Tókýó sem var opnuð við hátíðlega athöfn að forseta Íslands viðstöddum. Enn fremur var þá stofnað Japansk-íslenska félagið í Tokyo.

Áður hafði Vigdís heimsótt Japan árið 1987 í tengslum við opnun sýningarinnar Scandinavia Today. Þá hitti hún Hirohito Japanskeisara að máli í keisarahöllinni í Tókýó og hún varð síðasti þjóðhöfðinginn sem átti fund með honum skömmu áður en hann lést árið 1989. Vigdís var viðstödd útför hans ásamt 150 öðrum þjóðhöfðingjum.

Vigdís fór í opinbera heimsókn til Kína í lok ágúst árið 1995. Með forseta í för voru utanríkisráðherra og sendinefnd skipuð fulltrúum úr íslensku viðskiptalífi. Á sama tíma var fjórða kvennaráðstefna Sameinuðu þjóðanna haldin í Peking þar sem Vigdís flutti setningarávarp. Hún þakkaði Sameinuðu þjóðunum fyrir viðurkenningu þess á því að mannréttindi kvenna væru algild, sagði að kynjajafnrétti og friður væru samtvinnuð hugtök og sagðist vonast til að árangur ráðstefnunnar yrði varanlegt framlag til heimsfriðar. Aðeins hálfu ári fyrir komu Vigdísar til Kína var sendiráð Íslands opnað í Peking. Opinber heimsókn forsetans átti því drjúgan þátt í að greiða götu aukinna samskipta og viðskipta milli landanna.

Í forsetatíð Vigdísar stórjukust erlend samskipti Íslendinga á sviði mennta og vísinda. Í störfum sínum lagði Vigdís ennfremur afar mikla áherslu á að liðka fyrir viðskiptum á erlendri grund. Hún bauð fulltrúum atvinnulífsins, og þá einkum útflytjendum, að nýta þau tækifæri sem gáfust í opinberum heimsóknum nær og fjær og í flestum ferðum hennar voru viðskiptanefndir með í för. Þegar Vigdís afhenti Útflutningsverðlaun forseta Íslands í síðasta sinn árið 1996 þökkuðu forkólfar í íslensku atvinnulífi henni sérstaklega fyrir aðstoð og skilning sem hún hafði sýnt íslenskum útflutningi í forsetatíð sinni.