Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna

Þú ert hér:Forsíða > Eftir forsetatíð > Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna
Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna 2017-03-27T13:41:56+00:00

Velgjörðarsendiherra UNESCO fyrir tungumál

Vigdís hefur gegnt starfi velgjörðarsendiherra Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) í tungumálum frá árinu 1999. Hún er fyrsti og eini talsmaður tungumála á heimsvísu. Hlutverk velgjörðarsendiherra felst í að vekja athygli á mikilvægi tungumála fyrir menningarlega fjölbreytni og standa vörð um tungumál sem eru í útrýmingarhættu.

Sendiherra leiklistar í heiminum

Vigdís var kjörin sendiherra leiklistar í heiminum á þingi Alþjóðaleiklistarstofnunarinnar, International Theatre Institute (ITI), í Madrid á Spáni árið 2008. Alþjóðaleiklistarstofnunin heyrir undir UNESCO og hefur haft aðsetur í höfuðstöðvum UNESCO í París, en var flutt til Shanghai í árslok 2015.

Aðrir sendiherrar leiklistar hjá ITI eru:

  • llen Stewart frá Bandaríkjunum
  • Girish Karnad frá Indlandi
  • Arnold Wesker frá Bretlandi
  • Wole Soyinka frá Nígeríu
  • Anatoli Vasilliev frá Rússlandi
  • Vaclav Havel frá Tékklandi

Þau Vigdís og Vaclav Havel (1936-2011) hittust bæði sem þjóðarleiðtogar og á vettvangi leikhússins. Alþjóðaleiklistarstofnunin færir rök fyrir vali sínu á sendiherrum með því að hver sendiherra hafi ýmist í starfi, með nærveru sinni eða með því að ljá nafn sitt góðum málstað, stuðlað að því að ná markmiðum stofnunarinnar sem eru að efla vægi leiklistar í heiminum. Tengsl þeirra við ITI sé gömlum félögum og nýjum uppspretta nýrra hugmynda.

Siðfræði í vísindum og tækni – COMEST (Commission mondiale sur l´éthique science et technologie)

Vigdís gegndi formennsku á árunum 1999-2004 í nefnd UNESCO um siðfræði í vísindum og tækni (World Commission on the Ethics of Scientific Knowledge and Technology – COMEST) sem er ráðgjafanefnd á vegum Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Nefndin fjallaði um og stuðlaði að auknu vægi siðfræðilegra gilda í ákvörðunum sem varða vísindi og tækni.

Mondialogo – vettvangur fyrir menningarsamskipti unglinga

Mondialogo er samstarfsvettvangur sem stofnað var til árið 2003 í samvinnu UNESCO og Daimler AG með það að markmiði að stuðla að auknum menningarsamskiptum ungmenna á heimsvísu. Framtakið stóð fyrir keppni milli skóla, verkfræðiverðlaunum og vefsíðu fyrir menningarsamskipti unglinga. Vigdís var fulltrúi UNESCO við að hrinda verkefninu í framkvæmd.