Merkum tímamótum fagnað

Þú ert hér:Forsíða > Eftir forsetatíð > Merkum tímamótum fagnað
Merkum tímamótum fagnað 2017-03-27T13:41:57+00:00

Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur stóð fyrir alþjóðlegri ráðstefnu dagana 13.-15. apríl 2005 í tilefni af 75 ára afmæli Vigdísar. Ráðstefnan var haldin í samvinnu við utanríkisráðuneytið, menntamálaráðuneytið og Reykjavíkurborg og bar yfirskriftina Samræður menningarheima. Ráðstefnuna sóttu virtir fræðimenn á sviði bókmennta, menningarfræða, málvísinda og tölvuvísinda víðs vegar að úr heiminum.

Þá boðuðu íslensk stjórnvöld til heimsfundar menningarráðherra úr röðum kvenna í Reykjavík dagana 29.-30. ágúst 2005. Fundurinn var haldinn í samstarfi við Heimsráð kvenleiðtoga en Vigdís var einn stofnenda og fyrsti formaður ráðsins. Kvenráðherrar og sérfræðingar hvaðanæva að úr heiminum sóttu fundinn.

Í tilefni af 80 ára afmæli Vigdísar 15. apríl 2010 stóð Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur fyrir alþjóðlegri vísindaráðstefnu undir yfirskriftinni Varðveisla framtíðar: Sjálfbærni tungumáls, menningar og náttúru dagana 15.til17. apríl. Auk þess stóð stofnunin, í samvinnu við rektor Háskóla Íslands, menntamálaráðuneytið, utanríkisráðuneytið, Reykjavíkurborg og fjölmörg félaga og áhugamannasamtök, fyrir hátíðardagskrá í Háskólabíói. Dagskráin, sem bar heitið „Þú siglir alltaf til sama lands …“, var haldin fyrir fullu húsi auk þess sem henni var útvarpað og sjónvarpað.

Árið 2015 voru liðin 35 ár frá því að Vigdís Finnbogadóttir var kosin forseti Íslands. Í tilefni þess stóð Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í samvinnu við alþingi Íslendinga, Reykjavíkurborg, Skógræktarfélag Íslands, Ríkisútvarpið og fjölmörg félagasamtök og stofnanir fyrir hátíðardagskrá við Arnarhól hinn 28. júní. Mikill fjöldi manns tók þátt í hátíðardagskránni sem var sjónvarpað beint í Ríkisútvarpinu.