Alþjóðasamskipti

Þú ert hér:Forsíða > Forseti Íslands > Alþjóðasamskipti
Alþjóðasamskipti 2017-03-27T13:41:58+00:00

Vigdís var mjög virk í alþjóðasamskiptum, gerðist málsvari friðar og lýðræðis en lýsti aldrei yfir stuðningi við utanríkisstefnu stjórnvalda eins og fyrstu tveir forsetar lýðveldisins höfðu gert. Vigdís ræddi aldrei opinberlega um varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna eða aðildina að NATO. Hún heimsótti heldur aldrei herinn á Keflavíkurflugvelli. Vigdís átti fundi með þremur forsetum Bandaríkjanna en þar var hvorki fjallað um herinn né NATO.

„Hernaðarhyggja hefur leitt okkur á heljarþröm. Þessi vopnaði friður okkar – hvar stöndum við nú þegar haft er í huga að enn er unnt að eyða veröldinni á aðeins örfáum mínútum?“ (Morgunblaðið, 19. maí 1989)

Í forsetatíð Vigdísar stórjukust erlend samskipti Íslendinga á sviði mennta og vísinda. Í störfum sínum lagði Vigdís ennfremur afar mikla áherslu á að liðka fyrir viðskiptum á erlendri grund. Hún bauð fulltrúum atvinnulífsins, og þá einkum útflytjendum, að nýta þau tækifæri sem gáfust í opinberum heimsóknum nær og fjær og í flestum ferðum hennar voru viðskiptanefndir með í för.