Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti Íslands 29. júní árið 1980. Hún varð fjórði forseti lýðveldisins og gegndi embættinu í fjögur kjörtímabil eða til ársins 1996. Vigdís var endurkjörin án atkvæðagreiðslu árið 1984, í kosningum árið 1988 og aftur án atkvæðagreiðslu árið1992. Hún lét af embætti 31. júlí árið 1996.
Við embættistöku 1. ágúst árið 1980 sagði Vigdís:
“Ofar öðru ríkir þó í huganum – og mun ríkja – einlæg ósk um að lýðræðislegur háttur þjóðar okkar á þessu kjöri og allri stjórnskipan okkar megi verða landinu og okkur öllum til gæfu, í skiptum okkar hvert við annað og við aðrar þjóðir.” (Innsetningarræða 1980)
Fjölmargir vildu hitta og kynnast sjónarmiðum fyrsta þjóðkjörna kvenforseta heims og það jók á vinsældir og virðingu Vigdísar að hún talaði fjölda tungumála og var einkar vel að sér um sögu og menningu margra annarra þjóða. Færni hennar í Norðurlandamálum auk frönsku, ensku og þýsku vakti athygli og varð henni mjög til framdráttar. Við upphaf annars kjörtímabils segir Vigdís:
„Þegar ég stóð hér við embættistöku fyrir fjórum árum, hygg ég að tiltölulega fáir hafi gert sér fulla grein fyrir að Íslendingar höfðu þá brotið blað í mannkynssögunni með því að velja konu sem forseta lands síns fyrstir allra í almennum kosningum. Þau fjögur ár, sem ég hef verið í þessu embætti, hafa mjög mótast af því að aðrar þjóðir veittu þessu athygli og gerðu úr talsvert mál. Fyrir þær nýjungar í fjölmiðlatækni að fréttir geysast um heiminn – og oft á tímum fréttir sem ekki ættu að vera í frásögur færandi – skapaðist ný forvitni um Ísland og íslenska þjóð sem þótti hafa sýnt nokkra dirfsku. Fleiri þjóðir en áður vildu meira um eylandið í Norðurhöfum vita og treysta vináttubönd.“
Þegar aldarfjórðungur var liðinn frá kjöri Vigdísar sagði hún að við embættistöku hefði hún verið umkringd góðum mönnum í kjólfötum og hún hefði varla séð aðra konu í þessum hópi en frú Halldóru Eldjárn. Hún sagðist átta sig betur á því með tímanum hversu merkilegt það hefði verið að Íslendingar kusu konu í embætti forseta: „Það skiptir engu máli hvar í heiminum ég er. Alltaf nefnir fólk þetta sérstaklega. Kjörið vakti mikla athygli á landi okkar og þjóð.“ (Vigdís Finnbogadóttir, viðtal í janúar 2009)
Á forsetastóli fjallaði Vigdís oft um stöðu kvenna í samfélaginu. Við lok kvennaáratugar Sameinuðu þjóðanna árið 1985 sagði hún að löng leið væri frá Íslandi til himnaríkis. Þó að nokkur árangur hefði náðst væri enn mjög á brattann að sækja.
Vigdís var vinsæll og virtur forseti. Hún þótti sýna mikla hæfileika sem þjóðarleiðtogi og hlaut meðal annars einróma lof fyrir framgöngu sína í kjölfar snjóflóðanna á Flateyri og Súðavík 1995. Vigdís var viðstödd sérstaka minningarathöfn um þá sem fórust í snjóflóðunum þar sem hún sýndi aðstandendum og Vestfirðingum öllum ríka samkennd og hlýju. „Fólkið fann huggun í faðmlagi og sjómenn voru ekki feimnir við að gráta við öxl mína.“ (Vigdís Finnbogadóttir, viðtal í janúar 2009). Hún minntist atburðanna í áramótaávarpi 1995:
„Þegar við horfum yfir það ár, sem nú er liðið, minnumst við þess á undan öllu öðru að það ár heyrðum við þungan tregaslag. Þetta var ár skelfilegra náttúruhamfara, ár mikilla áfalla fyrir einstaklinga, heilar byggðir, þjóðina alla. Við svo váleg tíðindi, sem urðu í Súðavík og á Flateyri, finnum við átakanlega til vanmáttar en um leið fyllast hjörtu okkar af samúð til allra sem orðið hafa fyrir þungbærum missi, bæði þar og annars staðar í landinu.“