Framboð Vigdísar

Þú ert hér:Forsíða > Framboð og kjör > Framboð Vigdísar
Framboð Vigdísar 2020-06-15T15:22:28+00:00

Þjóðin kýs forseta Íslands í beinni kosningu. Hér á landi hefur kjör forseta ekki fylgt flokkspólitískum línum og þeir þjóðfélagsstraumar, sem ríkja hverju sinni, hafa haft mikil áhrif á hvaða frambjóðandi hefur náð kjöri.

Til að frambjóðandi til forseta öðlist hylli þjóðarinnar þarf henni að finnast að hann eða hún tali máli hennar, sé samnefnari og boðberi þeirra hugmynda og menningar sem eru efst á baugi hverju sinni. Á áttunda áratugnum hafði barátta kvenna fyrir áheyrn og þátttöku á opinberum vettvangi vakið vitund fólks um jafnrétti kynja og hrundið úr vör umbótum á lagalegum réttindum kvenna. Þátttaka kvenna í forystustörfum á opinberum vettvangi og í stjórnmálum heyrði lengst af nánast til undantekninga en eftir 1980 varð mikil breyting í þeim efnum. Vigdís kom ekki úr kvennahreyfingunni og var ekki frambjóðandi sameiginlegs kvennaafls en vafalaust hefur jákvæður tíðarandi í kjölfar Kvennaársins 1975 orðið frjór jarðvegur fyrir framboð hennar.

Á árunum 1971-1983 áttu aðeins þrjár konur sæti á Alþingi Íslendinga. Ingibjörg H. Bjarnason hafði verið kosin fyrst kvenna á þing árið 1922 en fram á áttunda áratuginn höfðu að jafnaði aðeins ein eða tvær konur átt þar sæti. Árið 1980 var ríkisstjórnin skipuð 10 ráðherrum sem allir voru karlar. Árið 1974 voru 96% bæjar- og sveitarstjórnarmanna karlar. Í stjórnarráðinu og embættismannakerfinu var sömu sögu að segja. Allir ráðuneytisstjórar voru karlar en ein kona gegndi starfi skrifstofustjóra. Engin kona var bankastjóri, sýslumaður eða bæjarfógeti. Þó að konum hefði fjölgað gífurlega á vinnumarkaði sáust þess fá merki í forystu- og leiðtogastörfum.

Á degi Sameinuðu þjóðanna, 24. október 1975, stóðu ýmis kvennasamtök að sameiginlegri baráttudagskrá á Lækjartorgi. Tugþúsundir kvenna lögðu niður vinnu þann dag og skunduðu á útifund til að sýna í verki kröfu sína um jafnrétti kynjanna. Þetta var í fyrsta sinn sem íslenskar konur vöktu heimsathygli fyrir jafnréttisbaráttu sína.

Framboð og kjör Vigdísar árið 1980, kvennaframboð í bæjar- og sveitarstjórnar- kosningunum tveimur árum síðar og framboð Samtaka um kvennalista til Alþingis árið 1983 breyttu ásýnd íslenskra stjórnmála. Stjórnmálaflokkarnir á Íslandi áttuðu sig á að konur „áttu atkvæði í hrönnum“ og að þær „þyrðu, gætu og vildu“ taka þátt í leiknum og því fjölguðu flestir flokkar konum á framboðslistum. Í kjölfarið hækkaði hlutfall kvenna meðal kjörinna fulltrúa.

Þegar ljóst varð að Kristján Eldjárn gæfi ekki kost á sér í forsetaembættið í fjórða sinn fóru ýmsir að velta fyrir sér hvort hvetja ætti konu til að bjóða sig fram til forseta. Nafn Vigdísar bar strax á góma en fyrsta fréttin um hugsanlegt framboð hennar birtist í Dagblaðinu. Þar er vitnað til lesendabréfs frá Laufeyju Jakobsdóttur, húsmóður í Reykjavík, þar sem hún lýsir því yfir að eftir umræður í hópi kvenna hafi niðurstaða þeirra orðið sú að skora á Vigdísi Finnbogadóttur, leikhússtjóra, að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands. Þá höfðu Albert Guðmundsson, Guðlaugur Þorvaldsson og Pétur J. Thorsteinsson allir tilkynnt framboð sín.

Í grein um forsetakosningarnar í Dagblaðinu 28. janúar 1980 er haft eftir Vigdísi að það sé víðs fjarri að hún ætli í framboð og hún biðst undan því að nafn hennar sé nefnt í því sambandi. Fjórum dögum síðar, 1. febrúar, birtist stór grein á forsíðu Dagblaðsins undir yfirskriftinni „Vigdís gefur kost á sér í forsetaframboð.“

Þar er Vigdís spurð hvort hún óttist ekki að sú staðreynd að hún sé kona muni há henni í forsetaembætti. Hún segir það engu máli skipta. Blaðamaður minnir þá á að hún sé ógift. Vigdís svarar: „Já, en ég hef hingað til komist af í opinberu lífi, veislum og öðrum samkomum án herra mér við hlið.“

Þegar hún var spurð hvort hún hefði fengið áskoranir vegna þess að hún væri kona var svarið: „Það hefur að sjálfsögðu ekki farið fram hjá mér að ég er kvenmaður þótt mér hætti til að gleyma því. Margt af því fólki, sem hefur hringt í mig, vill að meðal frambjóðenda sé að minnsta kosti eitt konuandlit.”

Degi síðar segir Vigdís frá því í grein í dagblaðinu Tímanum að henni hafi borist áskorendalistar alls staðar að af landinu: “Ég held þó að það hafi riðið baggamuninn þegar mér barst skeyti frá heilli skipshöfn úti á miðum þar sem ég var hvött til þessa en það er líklega fallegasta skeyti sem ég hef nokkru sinni fengið.” Það var áhöfnin á Guðbjarti frá Ísafirði sem fylgdi Vigdísi með hvatningarbréfum og góðum óskum alla kosningabaráttuna. Áhafnir fleiri togara tóku í sama streng og ljóst varð að Vigdís sótti mikinn stuðning til sjómanna. Hún skýrði stuðning þeirra á þann veg að þeir hefðu skilning á framboði hennar vegna þess að þeir dveldust langdvölum á sjó og kynnu að meta ábyrgð og störf kvenna sinna heima fyrir.

Konur voru mjög sýnilegar í kosningabaráttu Vigdísar. Svanhildur Halldórsdóttir var kosningastjóri hennar og konur stjórnuðu 15 af 24 kosningaskrifstofum. Margar konur, sem tekið höfðu virkan þátt í Rauðsokkahreyfingunni, studdu framboð hennar. Þær höfðuðu til samtakamáttar kvenna og báðu þær að standa saman eins og á kvennafrídaginn. Í fjölmörgum greinum bæði eftir konur og karla var bent á að nú gæfist þjóðinni tækifæri til að sýna hug sinn til jafnréttis kynja í verki.

Að mati kosningastjóra Vigdísar, Svanhildar Halldórsdóttur, fældi makaleysi Vigdísar margt fólk frá þótt það teldi hana hafa flest til að bera til að gegna embættinu. Í lesendadálkum dagblaðanna bar makaleysi Vigdísar á góma. Sjálf sagði hún alltaf að hún drægi það stórlega í efa að hún hefði farið í framboð ef hún hefði haft mann sér við hlið. Slíkt væri ekki leggjandi á karl af hennar kynslóð en hún lagði það á sjálfa sig. Vigdís sagði að það ætti að kjósa hana af því að hún væri maður. Það ætti að vera sjálfsagður hlutur að kjósa konu til jafns við karla. „Ef ég get lagt eitthvað til málanna til þess að konur sæki fram tel ég það til góðs fyrir dætur þjóðarinnar.“

Í aðdraganda forsetakosninganna árið 1980 var kalda stríðið í algleymingi og áhrifamiklum öflum í íslensku samfélagi þótti ótækt að forseti Íslands gæti hugsanlega haft neikvæð áhrif á varnarsamninginn við Bandaríkjamenn. Þá var Vigdísi legið á hálsi að vera vinstri sinnuð. Vigdís svaraði á þann veg að hún væri fylgjandi jöfnuði og hún væri friðarsinni. Ef það kallaðist að vera vinstri sinnuð gæti hún játað því. Vera erlends hers á Íslandi ætti að vera vakandi spurning en vegna stöðu heimsmála væri ill nauðsyn að hafa hér her. Hann væri gestur í okkar landi.

Í kosningabaráttuni orti Elísabet Þorgeirsdóttir, fiskvinnslukona og skáld, kvæðið hér að neðan til Vigdísar.

Til Vigdísar

Um leið og ég tíni
ormana úr þorskinum –
hvet ég þig til dáða.

Ég læt hnífinn vaða
í þorsk eftir þorsk
sem allir fá að heyra boðskapinn
áður en þeir falla í öskjurnar
og sigla til USA.

Um leið og ég vind bleyjurnar
og skelli óhreinum diskum í vask
sendi ég þér í huganum baráttukveðjur
þríf hastarlega til í öllu mínu drasli
reyni að beisla kraftinn
sem ætlaður er þér.

Þú manst
að barátta þín er fyrir okkur
hundruð mæðra í hundruðum eldhúsa
þúsund ára daglegt strit
í harðbýlu landi.

Haltu áfram
og ég held áfram
að hvísla því að þorskinum
en þrái mest
að fræða son minn
í fyllingu tímans
um kjark þinn.

Elísabet Þorgeirsdóttir, 1980.