Tungumál og menning

Þú ert hér:Forsíða > Eftir forsetatíð > Tungumál og menning
Tungumál og menning 2017-03-27T13:41:57+00:00

Vigdís hefur mjög látið til sín taka í menningarmálum eftir að hún lét af embætti forseta. Hún hefur unnið ötullega að því að styrkja tungumál, rannsóknir og menningu bæði heima fyrir og á alþjóðavettvangi og verið óþreytandi að benda á mikilvægi tungumála og tungumálakunnáttu fyrir jákvæð samskipti þjóða og fyrir árangur og tækifæri fyrirtækja og einstaklinga í alþjóðavæddum heimi. Þá hefur hún lagt áherslu á mikilvægi tungumála og fjölmenningar fyrir menningararfleið mannkyns. Hún hefur léð mörgu verkefninu lið og þær eru ótaldar bækurnar sem hún hefur ritað í og ræður sem hún hefur flutt á ráðstefnum, sýningum og öðrum viðburðum úti um allan heim.

Vigdís hefur alltaf brýnt fyrir fólki að rækta móðurmál sitt en ekki síður að læra erlend tungumál og kynnast menningu annarra þjóða því tungumál tengja þjóðir og einstaklinga og víkka sjóndeildarhringinn. Tungumálamenntun stuðlar að umburðarlyndi og friðsamlegum samskiptum og eflir þannig lýðræðið. „Tungumál eru lykill að heiminum“ hefur hún sagt.

Vigdís hefur gegnt starfi velgjörðarsendiherra Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) í tungumálum frá árinu 1999. Hún er fyrsti og eini talsmaður tungumála á heimsvísu. Hlutverk velgjörðarsendiherra felst í að vekja athygli á mikilvægi tungumála fyrir menningarlega fjölbreytni og standa vörð um tungumál sem eru í útrýmingarhættu.

Sendiherra leiklistar í heiminum

Vigdís var kjörin sendiherra leiklistar í heiminum á þingi Alþjóðaleiklistarstofnunarinnar, International Theatre Institute (ITI), í Madrid á Spáni árið 2008. Alþjóðaleiklistarstofnunin heyrir undir UNESCO.

Vigdís er heiðursfélagi í Norræna leikarasambandinu (Nordisk Skuespillerråd) og hlaut Heiðursgrímur þeirra árið 1996 við hátíðlega athöfn í Kaupmannahöfn.

Vigdís hlaut heiðursverðlaun Leiklistarsambands Íslands – Grímuna, Íslensku leiklistarverðlaunin árið 2006, fyrir framúrskarandi ævistarf í þágu menningar og lista.

Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum

Árið 2001 varð Vigdís við þeirri umleitan Háskóla Íslands að Stofnun í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands yrði við hana kennd. Stofnuninni er ætlað að efla rannsóknir og kennslu í erlendum tungumálum og vekja athygli á mikilvægi tungumálakunnáttu og menningarlæsis á öllum sviðum. Með nafnbreytingunni vildi Háskóli Íslands heiðra mikilvægt framlag Vigdísar á sviði tungumála og menningar á Íslandi og halda á lofti því brautryðjendastarfi sem hún hefur unnið í þágu tungumála á alþjóðavettvangi sem fyrsti velgjörðarsendiherra tungumála í heiminum hjá UNESCO.

Með markvissri starfsemi stofnunarinnar og ómetanlegu framlagi Vigdísar hefur tekist að stórefla þetta rannsóknarsvið við Háskóla Íslands. Stofnunin og framtíðarverkefni hennar hafa verið kynnt innan lands sem utan og þá oft með þátttöku Vigdísar. Einnig hefur verið komið á samstarfi við erlendar háskólastofnanir og leitað eftir stuðningi við rannsókna- og þróunarverkefni hjá erlendum menningar- og rannsóknasjóðum.

Starfsemi SVF hefur verið þróttmikil. Auk rannsókna og útgáfu fræðirita hefur stofnunin staðið fyrir fjölda alþjóðlegra ráðstefna auk málstofa og fyrirlestraraða. Nánari upplýsingar um stjórn, starfsmenn og starfsemi stofnunarinnar má finna hér.

Stjórn stofnunarinnar og Vigdís hafa unnið ötullega að því að koma á fót alþjóðlegri tungumálamiðstöð hér á landi innan vébanda stofnunarinnar. Verkefni miðstöðvarinnar verða að stórefla rannsóknir á sviði tungumála og menningarlæsis og varpa ljósi á mikilvægi tungumála fyrir góð og árangursrík samskipti og menningarlega fjölbreytni. Einnig er ætlunin að í miðstöðinni geti gestir og gangandi fræðst um tungumál og menningu á lifandi og skapandi hátt með aðstoð tölvutækni. Vorið 2013 var undirritaður samningur milli íslenskra stjórnvalda og UNESCO um að alþjóðlega tungumálamiðstöðin starfi undir merkjum UNESCO. Heiti miðstöðvarinnar verður Vigdísarstofnun – miðstöð tungumála og menningar.

Skömmu eftir að Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur var sett á laggirnar hófst átak til að afla fjár til að reisa byggingu fyrir framtíðarstarfsemi hennar. Mikið hefur áunnist og fjölmörg innlend og erlend fyrirtæki, félagasamtök og sjóðir hafa lagt verkefninu lið auk framlags íslenska ríkisins og Reykjavíkurborgar. Stærsta einstaka framlagið til verkefnisins er 210 milljóna króna styrkur frá danska sjóðnum A. P. Møller og Hustru Chastine Mc-Kinney Møllers Fond til almene Formaal.

Framkvæmdir við bygginguna hófust haustið 2014 og verklok eru áætluð í lok árs 2016.

Árið 2003 var stofnaður Styrktarsjóður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur. Markmið hans er að renna styrkum stoðum undir starfsemi Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og stuðla að vexti hennar og viðgangi. Vigdís hefur verið formaður sjóðsins frá upphafi.

Norðurbryggja

Við Kristjánshöfn í Kaupmannahöfn stendur 7000 fermetra pakkhús sem reist var á árunum 1766-67. Í tvær aldir var þar lífleg verslunarmiðstöð fyrir Færeyjar, Finnmörk í Noregi, Ísland og ekki síst Grænland. Þar var skreið, saltsíld, hvallýsi og skinnum skipað á land og verðmætur farmur geymdur áður en hann var fluttur á markaði sunnar í álfunni. Þar steig fólk á land eftir langa siglingu yfir Norður-Atlantshafið.

Þegar til stóð að selja þessa sögufrægu byggingu á almennum fasteignamarkaði var leitað liðsinnis Vigdísar Finnbogadóttur. Stofnuð var nefnd undir forystu Vigdísar til bjargar húsinu. Henni tókst, ásamt góðum samstarfsmönnum, að fá dönsk, færeysk, grænlensk og íslensk stjórnvöld til liðs við Norðurbryggju þar sem sameiginleg saga þjóðanna og tengsl þeirra við þetta sögufræga hús er dýrmætari en söluverð lóða. Auk framlaga frá ríkisstjórnum Danmerkur og Íslands og heimastjórnum Færeyja og Grænlands, skipti sköpum vegleg gjöf úr danska sjóðnum A. P. Møller og Hustru Chastine Mc-Kinney Møllers Fond til almene Formaal.

Þar stendur nú menningarmiðstöðin Norðurbryggja á einum fegursta stað borgarinnar við sundið. Sendiráð Íslands og skrifstofur heimastjórna Færeyinga og Grænlendinga eru einnig til húsa á Norðurbryggju.