Um vefinn

Þú ert hér:Forsíða > Um vefinn
Um vefinn 2017-03-27T13:42:02+00:00

Um vefinn

Kjör Vigdísar Finnbogadóttur í embætti forseta Íslands 29. júní 1980 vakti athygli um allan heim enda var kona þá í fyrsta sinn kjörin leiðtogi þjóðar sinnar í lýðræðislegri kosningu. Sögulegt kjör Vigdísar og farsælt starf hennar hefur vakið jákvæði athygli á Íslandi og íslenskri þjóð og menningu.

Á sextán ára forsetaferli tók Vigdís ekki aðeins á móti þjóðhöfðingjum og öðrum fyrirmönnum á Bessastöðum heldur fjölmörgum Íslendingum á öllum aldri sem eru minnisstæðir fundir með forsetanum. Í heimsóknum til fjölmargra landa hefur Vigdís ætíð sýnt lifandi áhuga á menningu og sögu annarra þjóða og hún hefur vakið athygli á Íslandi og náttúru landsins. Hún hefur einnig varpað ljósi á sérkenni íslensks þjóðfélags og tengsl Íslands við önnur lönd af áhuga og djúpstæðri þekkingu á sögu þjóðarinnar, menningu og listum. Menntun, lýðræði og jafnréttismál ásamt mikilvægi fjölbreyttrar menningar og tungumála hafa jafnan verið henni hugleikin og hún hefur látið umhverfis-, friðar- og mannúðarmál mjög til sín taka.

Vigdís hefur haldið áfram að vera í lifandi sambandi við þjóðina eftir að hún lét af embætti forseta árið 1996. Hún hefur unnið ötullega að hugðarefnum sínum bæði hér á landi og á alþjóðavettvangi. Hún hefur gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum og lagt margvíslegum málefnum lið með óeigingjarnri þátttöku. Þá hefur hún hlotið fjölda viðurkenninga fyrir störf sín, meðal annars verið sæmd heiðursdoktorsnafnbót og öðrum æðstu sæmdarheitum við fjölmarga háskóla- og vísindastofnanir.

Um vigdis.is

Þó að liðnir séu hátt í tveir áratugir síðan Vigdís lét af embætti berast sífellt fyrirspurnir um störf hennar og framlag. Vorið 2009 fór Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þáverandi utanríkisráðherra, þess á leit við Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum að gerður yrði vefur um ævi Vigdísar og störf. Ríkisstjórn Íslands stóð straum af kostnaði við verkið. Stofnunin hefur umsjón með vefnum sem er hýstur á vefsvæði Háskóla Íslands. Þar er fjallað um líf og störf Vigdísar, forsetatíð hennar, verkefni sem hún hefur sinnt síðan og þau áhrif sem hún hefur haft með störfum sínum.

Auk íslensks texta er þar að finna þýðingar á ensku, dönsku, frönsku, spænsku og þýsku.

Vefurinn er ekki endanlegur en þar er stofn að tré sem á eftir að teygja greinar sínar lengra og hærra.