Vigdís hefur alla tíð látið að sér kveða í málum er varða lýðræði, jafnrétti og mannréttindi.
Council of Women World Leaders
Árið 1997 stofnaði hún Heimsráð kvenleiðtoga (Council of Women World Leaders) við John F. Kennedy School of Government við Harvard-háskóla ásamt Laura Liswood sem er framkvæmdastjóri ráðsins. Vigdís gegndi formennsku í ráðinu á mótunarárum þess. Í heimsráðinu sitja starfandi og fyrrverandi forsetar og forsætisráðherrar úr röðum kvenna. Markmið ráðsins er að hvetja konur í valdastöðum um allan heim til að taka höndum saman um að vinna þeim málum brautargengi sem skipta sköpum fyrir konur og jafnrétti kynja. Með því að fjölga kvenleiðtogum, auka vald þeirra og vekja athygli á þeim vill Heimsráðið stuðla að góðum stjórnarháttum og efla lýðræði. Ráðið kom að heimsfundi menningarráðherra úr röðum kvenna sem haldinn var í Reykjavík árið 2005.
Velgjörðarsendiherra gegn kynþáttafordómum
Árið 2000 var Vigdís útnefnd velgjörðarsendiherra Sameinuðu þjóðanna í baráttunni gegn kynþáttafordómum og útlendingahatri, sem var eitt af þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
Club de Madrid
Vigdís er félagi í Club de Madrid sem eru óháð samtök um 70 fyrrverandi forseta og forsætisráðherra sem kosnir hafa verið í það embætti í lýðræðislegum kosningum. Markmið samtakanna er að efla lýðræði um allan heim með því að nýta krafta og sérþekkingu félagsmanna. Þetta er gert í samstarfi við önnur samtök en jafnframt veitir Club de Madrid ráðgjöf og stuðning þeim þjóðarleiðtogum og stofnunum sem stuðla að því að koma á lýðræðislegum breytingum. Club de Madrid er fjölmennasti vettvangur fyrrverandi þjóðarleiðtoga í heimi.
The Oslo Center for Peace and Human Rights
Vigdís er formaður fulltrúaráðs The Oslo Center for Peace and Human Rights sem Kjell Magne Bondevik, fv. forsætisráðherra Noregs, stofnaði árið 2006. Markmið stofnunarinnar er að stuðla að friði, mannréttindum, lýðræði og samvinnu milli mismunandi trúarbragða og menningarheima.
Fondation Chirac
Vigdís situr í heiðursráði sjóðs sem kenndur er við Jacques Chirac, fyrrum Frakklandsforseta. Markmið sjóðsins er að stuðla að friði í Afríku og auðvelda aðgengi almennings að hreinu vatni, heilbrigðisþjónustu og menntun. Sjóðurinn veitir árlega verðlaun fyrir forvarnir í þágu friðar og fyrir menningarstarf í þágu friðar í Afríku.