Mikill áhugi var á forsetakosningunum sem haldnar voru 29. júní 1980. Margir tóku þátt í umræðum, sóttu kosningafundi frambjóðenda og tjáðu sig á síðum dagblaðanna. Þegar kjörfundi lauk klukkan ellefu um kvöldið mældist kosningaþátttaka um 90.5%. Klukkan sex næsta morgun bárust síðustu tölur og þá varð ljóst að Vigdís hafði verið kjörin forseti þjóðarinnar.
Hún hlaut þriðjung greiddra atkvæða en tókst á skömmum tíma að ná til þorra þjóðarinnar. Hinir þrír frambjóðendurnir hvöttu þjóðina til að sameinast að baki nýjum forseta.
Vigdís var umsvifalaust boðuð í viðtal í upptökusal ríkissjónvarpsins og það var sent út bæði í útvarpi og sjónvarpi. Þegar hún sneri heim á Aragötu um sjöleytið um morguninn hafði fjölmenni safnast saman fyrir utan heimili hennar til að hylla hana. Vigdís var þá klædd handprjónuðum kjól sem ónefnd kona hafði gefið henni meðan á kosningabaráttunni stóð. Vigdís hafði heitið því að fara ekki í hann fyrr en sigur væri í höfn.
Lokaúrslit forsetakosninganna 29. júní 1980
- Vigdís Finnbogadóttir 43.611 atkvæði (33.8%)
- Guðlaugur Þorvaldsson 41.700 atkvæði (32.3%)
- Albert Guðmundsson 25.599 atkvæði (19.8%)
- Pétur J. Thorsteinsson 18.139 atkvæði (14.1%)
Vigdís hefur oft nefnt að hún fagni því að munurinn var svo lítill milli frambjóðenda, sem raun ber vitni, vegna þess að hann sýni að um raunverulega baráttu hafi verið að ræða. Bóndakona að norðan sendi Svanhildi Halldórsdóttur, kosningastjóra Vigdísar, eftirfarandi bréf 1. júlí 1980: „Í gleði minni yfir kosningasigri Vigdísar hripa ég fáeinar línur. Það eykur mér bjartsýni á framtíðina hvað margir gáfu henni atkvæði sitt, þessari djörfu, drengilegu konu, ímynd þess besta sem mér finnst þurfa að búa í hverjum Íslendingi. Og í mínum sveitakonuaugum er hún elskulega þjóðleg.“ Hún sendi eftirfarandi vísu eftir Valborgu Bentsdóttur og sagði að hljómurinn í orðum Vigdísar hefði minnt hana á erindið.
Metinn skal maðurinn
manngildi er hugsjónin.
Enginn um ölmusu biður.
Hljómar um fjöll og jörð.
Frelsi skal ríkja á jörð
jafnrétti, framþróun, friður.
Svanhildur Halldórsdóttir segist ekki hafa verið í vafa um að viðhorf til kvenna hafi breyst með kjöri Vigdísar og þær hafi öðlast aukið sjálfstraust. „Hún sannaði að við eigum fullt erindi í framvarðasveit, þar er ekki frátekið fyrir karla eina. Hún sannaði það, sem við stuðningsmenn hennar vissum, að konur eru engir eftirbátar karla. Hún lagði ríka áherslu á ræturnar – menningararfinn og tók okkur með sér út í fífilbrekkuna. Færði embættið nær þjóðinni og umgekkst alla sem jafningja – konur, karla og börn. Hún var góður talsmaður þjóðarinnar innan lands sem utan. Vigdís stóð undir væntingum okkar sem studdum hana á sínum tíma og vann hugi og hjörtu þeirra sem ekki studdu hana í upphafi en vildu síðar Lilju kveðið hafa. Í dag verður enginn uppnæmur þótt kona sækist eftir forystustörfum – og ég held að fæstir létu fjölskylduaðstæður hafa áhrif á afstöðu sína til einstaklinga sem sækja um ábyrgðarstörf. Það er meðal annars þetta sem hefur breyst.“
Vigdís hefur sjálf sagt að framfarir á sviði jafnréttismála séu sönnun þess að hægt sé að lyfta grettistaki á skömmum tíma sé viljinn fyrir hendi.
Vangaveltur og athugasemdir um kyn Vigdísar fylgdu henni alla kosningabaráttuna og voru einnig áberandi fyrstu ár forsetatíðar hennar. Augu heimsins beindust að sögueyjunni í norðri og þjóðin skynjaði að hún hafði brotið blað og með því orðið þátttakandi í heimsviðburði.
Kjör Vigdísar Finnbogadóttur í embætti forseta Íslands 29. júní 1980 vakti athygli um allan heim enda var kona þá í fyrsta sinn kjörin leiðtogi þjóðar sinnar í lýðræðislegri kosningu. Sögulegt kjör Vigdísar og farsælt starf hennar hefur vakið jákvæði athygli á Íslandi og íslenskri þjóð og menningu.