Landgræðsla, skógrækt og náttúruvernd eru Vigdísi afar hugleikin og hún hefur veitt þessum málefnum ómetanlegan stuðning. Hún hefur vakið athygli á uppeldislegu gildi þess að kenna börnum að rækta og vernda náttúruna. Hún telur að æska landsins öðlist þannig virðingu fyrir landinu og finni til ábyrgðar í umgengni við náttúruna. Í forsetatíð sinni lagði Vigdís mikla áherslu á að græða upp landið og gróðursetja tré. Hún hefur líkt jarðyrkju við uppeldi barna og sagt að ræktun lands sé nátengd mannyrkju.
Í forsetatíð Vigdísar árið 1990 stofnaði Skógræktarfélag Íslands Vinaskóg í landi Kárastaða í nágrenni Þingvalla, henni til heiðurs og gleði. Skóginum var ætlað að minna á mikilvægi vináttu og friðar meðal manna. Þangað hafa komið heimsþekktir gestir og gróðursett tré. Þeirra á meðal eru fjölmargir þjóðhöfðingjar og fulltrúar erlendra ríkja og alþjóðlegra stofnana.
Vigdís er verndari Landverndar. Í júní 2005 kom stjórn samtakanna saman í Alviðru í Ölfusi til að gróðursetja 75 bjarkir sem nú mynda Vigdísarrjóður. Rjóðrið á að vera skjól þeim börnum sem í framtíðinni sækja fræðslu og útvist í Alviðru. Gróðursetningin var afmæliskveðja samtakanna til Vigdísar.
Yrkja er landgræðslusjóður fyrir börn og unglinga, stofnaður á sextugsafmæli Vigdísar árið 1990. Af því tilefni var gefin út bók þar sem Vigdís var kölluð grænsokka. Yrkja veitir börnum í grunnskólum landsins fé til að kaupa tré og gróðursetja í lundum. Hugmyndin er að börnin fylgist með trjánum sínum vaxa og öðlist þannig vitund um verðmæti náttúrunnar. Fyrsti formaður Yrkju var Matthías Johannessen skáld en við formennsku tók Sigurður Pálsson skáld.
Orð og gróður eru Vigdísi afar kær.