Starfsferill

Þú ert hér:Forsíða > Fram að forsetatíð > Starfsferill
Starfsferill 2020-06-15T14:59:20+00:00

Þegar Vigdís sneri heim úr námi gerðist hún kynningarfulltrúi Þjóðleikhússins (1954-1957 og 1961-1964) og ritstýrði leikskrám hússins.

Ferðaþjónusta

Vigdís vann mörg sumur hjá Ferðaskrifstofu ríkisins. Hún var frumkvöðull að því sem síðar hefur verið nefnt menningartengd ferðaþjónusta. Hún skipulagði ferðir á söguslóðir og á vettvang Íslendingasagna og tók saman kynningarefni um land og þjóð í samstarfi við Magnús Magnússon (1929-2007), rithöfund og einn vinsælasta sjónvarpsmann breska útvarpsins BBC. Störf Vigdísar fólust einnig í að kynna landið og taka á móti erlendum rithöfundum, blaðamönnum og kvikmyndagerðarmönnum sem hingað leituðu eftir efni í greinar, bækur og myndir um Ísland.

Vigdís hafði forgöngu um að efna til leiðsögumannanámskeiðs árið 1960 sem haldið var á vegum Ferðaskrifstofu ríkisins í tíð Þorleifs Þórðarsonar, forstjóra Ferðaskrifstofunnar. Námskeiðin voru haldin í Háskóla Íslands, fyrst í Aðalbyggingu og svo í Árnagarði. Ásamt Vigdísi, voru m.a. Björn Th. Björnsson listfræðingur og Björn Þorsteinsson sagnfræðingur meðal leiðbeinanda á námskeiðinu. Vigdís var gerð heiðursfélagi í Félagi leiðsögumanna og ber skírteini nr. 1.

Frönskukennsla

Vigdís kenndi frönsku við Menntaskólann í Reykjavík 1962-1967 og Menntaskólann við Hamrahlíð 1967-1972. Þá kenndi hún einnig franskar leikhúsbókmenntir við Háskóla Íslands. Í formannstíð hennar í Alliance française í Reykjavík skapaðist hefð fyrir viðburðum í bókasafni Alliance française. M.a. setti hún upp stutta þætti úr leikritum Marivaux, Musset og Beaumarchais með nemendum í frönsku við Háskóla Íslands. Margir minnast hennar fyrir frönskukennslu í sjónvarpinu á þessum árum (1971-1972) en það voru fyrstu útsendingarnar í íslensku sjónvarpi þar sem kennt var erlent tungumál. Vigdís hefur sagt að frönskukennslan í sjónvarpinu ásamt árum hennar í leikhúsinu hafi mestu skipt um að landsmenn þekktu til hennar. Frönskukennslan var byggð á kennsluþáttum með leikurum frá Comédie française. Aðstoðarmaður Vigdísar í þáttunum var Gérard Vautey.

Vigdís hefur alla tíð lagt mikla rækt við franska tungu og menningu og viljað hlut hennar sem mestan. Hún hefur verið félagi í Alliance française frá árinu 1955 og var forseti Alliance française á Íslandi frá 1975 til 1976. Hún er heiðursfélagi Alliance française í Reykjavík.

Á aldarafmæli Alliance française í Reykjavík árið 2011, afhenti Jean-Claude Jacq, aðalritari Fondation Alliance française í París og æðsti maður Alliance française á heimsvísu, Vigdísi heiðurspening Alliance française.

Í þágu leiklistar

Vigdís lét einnig til sín taka í annarri dagskrárgerð hjá Ríkisútvarpinu því að hún sá um leiklistarkynningar í sjónvarpsþættinum Vöku um tveggja ára skeið.

Hún var einn af stofnendum leikhópsins Grímu árið 1962 en það var fyrsta framúrstefnuleikhúsið hér á landi. Gríma var rekin í Tjarnarbíói og þar voru sett upp leikrit eftir samtímahöfunda eins og Sartre, Ionesco, Max Frisch og Jean Genet. Vigdís þýddi m.a. fyrir þessar sýningar Huis Clos eftir Sartre (Læstar dyr) og Les Bonnes eftir Jean Genet (Vinnukonurnar). Áratug síðar varð hún leikhússtjóri Leikfélags Reykjavíkur sem þá var til húsa í Iðnó. Á þeim tíma þýddi Vigdís m.a. gamanleikinn Fló á skinni eftir Georges Feydeau (La Puce à l’Oreille sem gekk í þrjú ár (1972-1975). Vigdís gegndi starfi leikhússtjóra Iðnó í átta ár eða þar til hún var kjörin forseti.

Á þessum árum var mikil gróska í leiklistarlífi Íslendinga og áhersla lögð á að kynna og flytja leikrit íslenskra höfunda. Á leikhússtjóraárum Vigdísar hjá Leikfélagi Reykjavíkur stóð metnaður starfsmanna til að ráðast í nýja byggingu fyrir starfsemi Leikfélagsins og þar var Vigdís öflugur liðsmaður. Með sameiginlegu átaki margra aðila var ráðist í að byggja nýtt leikhús sem nú er rekið sem Borgarleikhúsið.

Við upphaf annars kjörtímabils síns sem forseti árið 1984 sagði Vigdís að enginn gæti gert sér fyllilega grein fyrir því hvernig forsetastarfið væri og hvergi væri hægt að læra til forsetastarfa á skólabekk. Forsetinn yrði að starfa í samhljómi við þjóðina sjálfa og slá á þá strengi sem kunna að eiga sér enduróm hverju sinni. Hún hefur sagt að starfið í leikhúsinu hafi reynst henni góður skóli fyrir forsetaembættið.

Á vettvangi Norðurlanda

Í störfum sínum hefur Vigdís átt náin samskipti við Norðurlönd og verið einarður talsmaður þess að rækta þann vinarhug sem ríkir meðal frændþjóðanna. Hún hefur gegnt fjölda trúnaðarstarfa á norrænum vettvangi og haldið norrænu samstarfi á loft bæði innan og utan Norðurlanda. Þegar hún var leikhússtjóri tók hún sæti í ráðgefandi nefnd Norrænu ráðherranefndarinnar um menningarmál (RKK) og gegndi þar formennsku (1978-1980) þar til hún var kjörin forseti.